Thursday, April 26, 2007

Tónleikar

Friday, April 20, 2007

TILKYNNING !

Hljómsveitin Sviðin Jörð vill, að gefnu tilefni, taka af öll tvímæli um uppruna SMS skeyta sem farið hafa eins og eldur í sinu milli manna undanfarna sólarhringa.

Nafn hljómsveitarinnar er þar bendlað við afar vafasaman brandara um húsbrunann ógurlega í miðborginni.

Meðlimir hljómsveitarinnar, sem þekktir eru öðrum þræði fyrir gáska og gráglettinn húmor myndu aldrei láta sér koma til hugar að gantast með jafn alvarlegan og sorglegan atburð eins og þann sem þarna átti sér stað. Fjöldi manns missti lífsviðurværi sitt og sumir jafnvel aleiguna utan þess hve gríðarlegt tjón varð þarna á verðmætum í veraldlegum og menningarsögulegum skilningi.

Eitt helsta vígi lifandi tónlistar á Íslandi, Cafe Rósenberg, er fyrir bí og alls óvíst á þessari stundu hvað tekur við. Menn skyldu minnast þess þegar þeir gera grín að brunanum að þarna urðu á skammri stundu eldi að bráð rómaður og rótgróinn veitingastaður, vinsæll skemmtistaður ungs fólks og Mekka lifandi tónlistar. Sá missir verður ekki bættur með lélegum bröndurum.

Sviðin Jörð átti bókaða hljómleika á Cafe Rósenberg, sem fara áttu fram réttri viku síðar, bruninn kemur í veg fyrir að af þeim geti orðið að sinni. Hljómsveitin heitir því að koma fram við fyrsta tækifæri og verði Rósenberg endurbyggður verða hljómleikar hljómsveitarinnar vonandi með þeim fyrstu sem bókaðir verða á nýjum stað.